Félagsfundur 8. mars 2011

Haldinn þann 8. mars 2011 í félagsheimilinu að Hátúni 12.

Hannes Sigurðsson, formaður Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu setti fund og gerði tillögu um Guðríði Ólafsdóttur sem fundarstjóra og Guðbjörgu Kristínu Eiríksdóttur sem fundarritara; voru þau samþykkt með lófataki. Tók þá Guðríður við fundarstjórn.

Fyrst á dagskrá var inntaka nýrra félaga, var þeim fagnað í félagið með lófataki. Átta félagar höfðu látist á tímabilinu frá síðasta félagsfundi og var þeirra minnst með stundarþögn.

Aðalefni þessa fundar var erindi þeirra Hrefnu K. Óskarsdóttur og Helgu Björnsdóttur: „Fullkomleiki og fegurð: vangaveltur um líkama, konur og fötlun“.

Fjölluðu þær m.a. um fegurðarsamkeppni „Britain´s Missing Top Model“ sem var haldin í Bretlandi fyrir nokkru þar sem konur með sýnilega skerðingu kepptu innbyrðis. Höfðu þær Hrefna og Helga skoðað hvernig ímynd fatlaðra kvenna (og karla) virtist vera frábrugðin ímynd hins fullkomna módels.

Fór Hrefna inn á það hvernig ímynd fegurðar hefði breyst í gegn um aldirnar. Kom hún svo inn á þá mynd sem margar konur miði sig við, ímynd ofurfyrirsætunnar, en í raun væri það þannig að einhvern tímann á ævinni hafa allir eitthvað sem passar ekki við þá ímynd.

Ímynd fatlaðra kvenna hefur lítið verið rannsökuð, eru þar fötlunarfræðin ekki undanskilin. Þar hefur frekar verið rýnt í stöðu fatlaðra í samfélaginu.

Helga tók svo við og ræddi um mátt fjölmiðla; þeir skapi í raun ímyndaðan raunveruleika. Benti hún svo á að raunveruleikaþáttum hefði fjölgað og að sumir bæru slíka þætti saman við freak shows (furðusýningar) fyrri tíma. Þátttaka í slíkum sýningum var eiginlega möguleiki fatlaðra til þess að tilheyra einhverjum hópi fólks sem var í svipuðum aðstæðum og það sjálft. En fyrir stjórnendur var þetta fyrst og fremst fjárhagslegur ávinningur og fyrir áhorfendur fullnægðu slíkar sýningar á „afbrigðilegu“ fólki einhverri gægjuþörf þeirra.

Kom Helga svo inn á þessa fyrrnefndu fegurðarsamkeppni sýnilega fatlaðra kvenna. Væru þær eiginlegir brimbrjótar og fyrirmyndir fyrir margar konur þar sem margar fatlaðar konur reyndu að fela skerðingu sína en þær ekki.

Var svo opnað fyrir spurningar og umræður. Tóku margir til máls um þetta málefni. Í umræðu um dvergvaxið fólk kom Guðríður inn á að á undanförnum árum hefði öllum fóstrum með dvergvöxt verið eytt hér á landi. Grétar Pétur formaður lsf sagði frá því að fólk í framkvæmdastjórn hafi rætt þessi mál í nokkurn tíma og þyrfti að vinna margvisst að fræðslu t.d. fyrir foreldra.

Önnur mál. Þorbera sagði frá því að Kvennahreyfing ÖBÍ og Sjálfsbjörg ásamt 6 öðrum félögum muni ganga í evrópsk samtök gegn fátækt og félagslegri einangrun. Þar eru þolendurnir sjálfir miðpunkturinn.

Guðríður kynnti svo fyrir fundarmönnum aðdragandann að stofnun Kvennahreyfingar ÖBÍ þann 8. mars 2005. Sagði hún frá mánaðarlegum fyrirlestrum á þeirra vegum um ýmis málefni.

Fleira var ekki tekið fyrir, fundi slitið kl. 20:30 og boðið upp á veitingar.

Fundarritari: Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir