Aðkoma að byggingum – Leiðbeiningar 6.2.3 og 6.2.2

Aðkoma að byggingum – Leiðbeiningar 6.2.3 og 6.2.2

Í leiðbeiningum 6.2.3. um algilda hönnun aðkomu að byggingum má finna upplýsingar um hvernig aðkoma að byggingum skuli vera samkvæmt algildri hönnun. Leiðbeiningar 6.2.2. um aðkomuleiðir og umferðasvæði innan lóðar fjalla um aðkomu að almennum byggingum og má þar  jafnframt finna upplýsingar um áherslumerkingar. Leiðbeiningarnar hafa skýringarmyndir ásamt neðangreindum upplýsingum:

Frá götu að inngangi:

 • Kantur frá t.d. bílastæði að fláa á gangstétt má að hámarki vera 25 mm hár til að fólk í hjólastól geti farið um hann. Kanturinn er nauðsynlegur fyrir sjónskerta og blinda svo þeir geti farið eftir gangstéttinni með hvítan staf. Hámarks halli á fláanum er 1:10 (10 %). Ef hallinn er meiri er hætta á að hjólastóllinn velti.
 • Aðkoma frá götu og bílastæðum að byggingum og útivistarsvæðum þeirra á að hafa slétt yfirborð með hálkuvörn og vera upphituð.
 • Fúgur flísa og hellna skulu vera að hámarki 5 mm breiðar. Séu þær breiðari þarf að fylla þær alveg upp með endingargóðu föstu efni.
 • Þrep eiga almennt ekki að vera í gönguleiðum að inngangi bygginga.
 • Hæðarmismun skal leysa með skábrautum og hallandi aðkomuleiðum.
 • Hliðarhalli á að vera að vera að hámarki 1:40 eða 2,5% svo að vatn safnist ekki fyrir á gönguleið að byggingunni.
 • Breidd gönguleiðar að byggingum á að vera að lágmarki 1,80 m. Gönguleiðir sem eru styttri en 3 m mega hafa  lágmarks breidd 1,40 m ef endi þeirra er að minnsta kosti 1,80 x 1,80 m að stærð svo hjólastólar hafi tök á að mætast.
 • Hallandi gönguleið þarf að hafa láréttan hvíldarflöt, sem er a.m.k. 1,80 m að lengd og breidd, fyrir hverja 0,60 m hæðaraukningu.
 • Við hæðarbreytingar á að vera áherslumerkingasvæði fyrir sjónskerta og blinda í samræmi við leiðbeiningar 6.2.4. frá Mannvirkjastofnun.

Inngangur:

 • Fyrir framan inngangsdyr er æskilegt að setja annað yfirborðsefni til að auðvelda sjónskertum að finna þær. 
 • Yfirborðsefni við inngangsdyr á að vera þannig að sjónskertir sjái það auðveldlega og þannig að þeir sem nota hvíta stafinn finni auðveldlega fyrir því. Slíkt má til dæmis gera með niðurfelldri rist, sem er í sömu hæð og gólfefnið eða með stálplötum, flísum eða hellum sem eru með upphleyptu munstri/hnöppum.
 • Ristar mega að hámarki vera með 9mm stór ristargöt svo hvíti stafurinn fari ekki í gegnum ristina.
 • Hnappar/munstur mega að hámarki vera 5mm að hæð.
 • Litamismunur á yfirborðsefnum við inngang skal vera að lágmarki LRV 60 eða NCS 0,75

Lýsing:

 • Lita/-og birtuskilyrði við innganga þurfa að vera þannig að öll aðkoma og inngangsleiðir séu afgerandi og skýrar til að auðvelda fólki með skerta sjón að átta sig á staðsetningu þeirra.
 • Passa þarf að lýsing sé góð og þannig uppsett að hún skeri ekki í augun.
 • Hæð útiljósastaura þarf að vera að lágmarki í mjaðmarhæð svo sjónskertum og blindum stafi ekki hætta af þeim.
 • Bil milli ljósastæða sem vísa leiðina að inngangi, ætti að vera að hámarki 10m.
 • Gott er að hafa sterkari lýsingu við tröppur, skábrautir og innganga, sérstaklega fyrir fólk með skerta sjón.

Merkingar: Stórir glerfletir:

 • Allar merkingar, upplýsinga- og ratskilti við byggingar skulu vera skýrar, greinilegar, auðlesnar, auðskildar og glampafríar.
 • Mikill litamismunur skal vera á milli bakgrunns og skiltis þannig að auðveldara sé að sjá skiltið úr fjarlægð og texti auðlesnari.
 • Mikill litamunur skal vera á texta og bakgrunni skiltis.
 • Forðast skal að nota einungis hástafi.
 • Upphleyptir stafir eru auðlesnastir fyrir sjónskerta.
 • Merkja skal eða afmarka alla stóra glerfleti sem eru í gönguleiðum á skýran og greinilegan hátt.
 • Merking skal vera bæði í 0,90 m hæð og í 1,40 – 1,60 m hæð með áberandi hætti.

Tröppur og þrep:

 • Séu lóðir of brattar til að hægt sé að jafna hæðarmun með halla samsvarandi halla skábrautar er heimilt að víkja frá þeirri reglu að ekki séu þrep í gönguleiðum að inngangi bygginga.
 • Við enda skábrauta og trappa á að vera yfirborðsefni í annars konar lit og áferð. Þetta yfirborðsefni á að vera í 0,9 m lengd frá brún skábrauta/trappa og í fullri breidd þeirra.
 • Tröppunef á að merkja lárétt og lóðrétt (hámark 40 mm á kant) með efni sem er í miklum litamismun við tröppurnar og inniheldur hálkuvörn. Þetta auðveldar sjónskertum að sjá brúnirnar og hjálpar einnig fólki með hvíta stafinn að finna kantinn. Varast skal þó að hafa mjög dökkan lit á ljósu yfirborðsefni þar sem það gæti virkað sem hola eða hæðarmunur.