Vinnustofur Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Reykjavík

Upphafið að fyrri vinnustofu Sjálfsbjargar í Reykjavík má rekja til fyrstu funda félagsins og strax á öðrum stjórnarfundi félagsins í ágúst 1958 var rætt um vinnustofu. Það var síðan í mars 1962 sem ákveðið var að auglýsa eftir iðnfyrirtæki til sölu sem bar engan árangur og var þá litið til pappaöskjugerðar og var aðkoma frá Sjálfsbjörg landssambandi fatlaðra að stofnun vinnustofunnar og farið var til Esjberg í Danmörku til að skoða pappaöskjuverksmiðju. Síðan var fallið frá þeirri framleiðslu og á fundi þann 24. mars 1962 var ákveðið stofnun saumastofu til ýmiskonar framleiðslu á fatnaði og var ákveðið að leita að húsnæði fyrir starfsemina Í október 1962 var ákveðið að kaupa 130 fermetra kjallaraíbúð að Marargötu 2 sem var afhent í nóvember 1962. Það var síðan ákveðið að sauma karlsmannsnærföt þar sem þau myndu seljast auðveldlega og síðar bættust barnanærföt við í framleiðsluna. Á fundi þann 12.03.1964 var lögð fram reglugerð fyrir „Vinnustofu Sjálfsbjargar – félags fatlaðra í Reykjavík“:

  1. grein Nafn Vinnustofunnar er: Vinnustofa Sjálfsbjargar Reykjavík.

2.  grein Vinnustofan er eign Sjálfsbjargar – félags fatlaðra í Reykjavík og rekin af félaginu eins og nánar greinir í þessari reglugerð. Félagið er ábyrgt fyrir öllum skuldbindingum Vinnustofunnar. Fjárhagur Vinnustofunnar er að öllu leyti aðskilinn frá öðrum fjármálum félagsins.

3.  grein Tilgangur Vinnustofunnar er að veita fötluðu fólki starf sem mest við þess hæfi og skulu Sjálfsbjargarfélagar sitja fyrir um vinnu að svo miklu leyti sem unnt er. Ráðningar skulu gerðar af forstjóra Vinnustofunnar og með samþykki stjórnar hennar.

4. grein Stjórn Vinnustofunnar skal skipuð þrem mönnum og jafn mörgum til vara. Skal vinnustofustjórn kosin af stjórn félagsins til eins árs í senn. Tilnefnir félagsstjórnin og árlega sérstakan bókara fyrir Vinnustofuna sem ber erindisbréf forstjóra. Stjórn Vinnustofunnar heldur fundi svo oft sem þurfa þykir og eigi sjaldnar en á mánaðarfresti. Forstjóri eða einn af meðlimum vinnustofustjórnar geta óskað eftir stjórnarfundi og er þá formanni skylt að kalla saman stjórnarfund innan viku frá því óskin var borin fram. Verði ágreiningur um afgreiðslu mála innan vinnustofustjórnar skal málinu vísað til stjórnar félagsins til úrskurðar. Allir fundir vinnustofustjórnar skulu bókaðir í sérstaka fundargerðarbók og skulu fundargerðir undirritaðar af stjórnarmönnum öllum ásamt forstjóra. Stjórnin kýs sér formann og ritara á fyrsta stjórnarfundi. Forstjóri Vinnustofunnar skal sitja alla stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétti, en er ekki atkvæðisbær. Hann skal hafa bókhald og skila uppgjöri samkvæmt fyrirmælum bókara Vinnustofunnar. Einnig skal hann gefa vinnustofustjórn skýrslu um hag og rekstur Vinnustofunnar sé þess óskað. Eigi skal hann þó skyldur að svara fyrirspurnum á sama fundi og þær koma fram á.

5.   grein Stjórnir félagsins og vinnustofustjórnar ráða forstjóra, ákveða launakjör hans og setja honum erindisbréf. Forstjóri ræður annað starfsfólk og ákveður kjör þess með samþykki vinnustofustjórnar sem ber 3. grein þessarar reglugerðar.

6.  grein Reikningsár Vinnustofunnar er almanaksárið. Fyrir rekstur vinnustofunnar svo og húseign stofnunarinnar skal halda sundurgreint reikningshald. Stjórn Vinnustofunnar skal gæta þess að vörubirgðir, peningar og aðrar eignir séu rétt taldar um hver áramót. Reikningar Vinnustofunnar skulu lagðir fyrir stjórn félagsins og vinnustofustjórnar endurskoðaðir af löggiltum endurskoðenda fyrir 1. apríl ár hvert.

7.  grein Starfsmenn fá greidd laun fyrir vinnu sína sem stjórnin ákveður að fengnum tillögum og í samráði við forstöðumann sem ber 5. grein og í samræmi við launagreiðslur á öðrum vinnustofum fyrir öryrkja.

8. grein Reglugerð þessari getur félagið breytt á aðalfundi enda berist breytingartillögur að minnsta kosti viku fyrir fundinn.

9. grein Stjórn Vinnustofunnar skal skylt að hafa samráð við stjórn félagsins um breytingar á framleiðsluháttum svo sem kaup og sölu framleiðslutækja.

10. grein Sérhver starfsmaður er skyldur að hlýða þeim reglum er settar kunna að verða af forstöðumanni eða vinnustofustjórn um vinnutilhögun og annað það í rekstri Vinnustofunnar er rétt þykir að setja ákveðnar reglur um. Gerist starfsmaður brotlegur við þær starfsreglur er settar kunna að verða er heimilt að víkja viðkomandi úr starfi.

11. grein Óski félagið að leggja niður starfsemi Vinnustofunnar skal leita umsagnar framkvæmdaráðs Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra og leggja síðan málið fyrir félagsfund sem tekur fullnaðar ákvörðun um málið. Stjórn Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Reykjavík. Sigurður Guðmundsson formaður, Vilborg Tryggvadóttir ritari, Hlaðgerður Snæbjörnsdóttir, Helgi Eggertsson og Sigmar Ó. Maríusson.

Það var síðan í upphafi árs 1965 sem vinnustofan tók formlega til starfa og voru þá 10 starfsmenn hjá vinnustofunni og síðar á árinu 1966 voru þeir orðnir 13. Það var síðan orðið ljóst að rekstur vinnustofunnar gengi ekki upp og ákveðið að hætt yrði rekstri um mánaðarmótin nóvember-desember 1967 um óákveðinn tíma.

Upphafið að seinni vinnustofu Sjálfsbjargar í Reykjavík má rekja aftur til 22. þings Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra 8.06.1984-10.06.1984 þar sem ályktanir voru samþykktar og ein af ályktunum sem samþykkt var, var um atvinnumál hljóðaði svo „Þingið hvetur aðildarfélög Sjálfsbjargar til að hafa samvinnu við félagasamtök og sveitastjórnir á félagssvæðinu um stofnun verndaðra vinnustaða“. Það er síðan í fundargerð stjórnar þann 21.09.1984 sem stendur „Rætt um bréf frá framkvæmdastjórn varðandi ályktun 22. þings Sjálfsbjargar um vinnustofu er félagið sæi um“. Stjórnin samþykkti að hefja undirbúning að þessu máli og 04.12.1984 var ákveðið að sækja um leyfi fyrir vernduðum vinnustað í Reykjavík og fór formleg beiðni til félagsmálaráðherra í janúar 1985. Á árinu 1985 var síðan mikil undirbúningsvinna í gangi og kynningar á fyrirhuguðum vernduðum vinnustað félagsins til að fá leyfi fyrir rekstrinum og síðan barst bréf frá Félagsmálaráðuneytinu dagsett 13.05.1985 þar sem félaginu var veitt starfsleyfi fyrir rekstri verndaðs vinnustaðar. Svæðisstjórn Reykjavíkur fór fram á það að verndaði vinnustaðurinn yrði alfarið innan borgarmarkanna og lokaði það fyrir möguleikann á að vera líka í samstarfi við Svæðisstjórn Reykjaness eins og fyrirhugað var. Farið var í kaup á vélum á seinni hluta ársins 1987 og farið var í kynnisferðir og síðan ákveðið að hefja framleiðslu á vakumdregnum umbúðum. Þá voru vélar keyptar og húsnæði tekið á leigu. Í október 1987 var búið að ráða fyrsta starfsmann vinnustofunnar sem hét Einar Einarsson. Á fundi 05.01.1988 er talið víst að rekstrargrundvöllur sé kominn fyrir rekstri vinnustofunnar vegna líklegra úthlutunar fjármagns frá Svæðisstjórn Reykjavíkur og Félagsmálaráðuneytinu.
Fundur haldinn þann 24.02.1988 í húsakynnum vinnustofunnar að Dverghöfða 27. Búið var að skrifa undir leigusamning og tvo ráðningarsamninga og síðan var vélar og húsakostur skoðaður.
Verndaði vinnustaðurinn hóf rekstur 01.12.1988. Í mars 1989 er það til umræðu að engir Sjálfsbjargarfélagar höfðu sótt um starf hjá vinnustofunni.
Í sérstakri fundargerðarbók sem notuð var fyrir seinni Vinnustofu Sjálfsbjargar í Reykjavík eru skráðar 20 fundargerðir. Fyrsti fundurinn er dagsettur þann 25. apríl 1989 í húsnæði Vinnustofunnar að Dverghöfða 27 í Reykjavík. Á fundinn mættu Trausti Sigurlaugsson sem kosinn var formaður, Hulda Steinsdóttir kosin ritari og Jón H. Sigurðsson kosinn meðstjórnandi auk þess sat fundinn Magnús Halldórsson framkvæmdastjóri Vinnustofunnar. Seinni hluta ársins 1989 var reksturinn á vinnustofunni orðinn mjög erfiður. Í mars 1990 er rætt um það ef ekki komi meira fé frá Framkvæmdasjóði fatlaðra þá þurfi jafnvel að hætta rekstri vinnustofunnar. Á stjórnarfundi 18.06.1990 lagði vinnustofustjórnin til að félagið hætti frekari rekstri á Vinnustofu Sjálfsbjargar. Farið var í það að gera upp skuldir vinnustofunnar. Það er síðan í upphafi árs 1993 að búið var að gera samkomulag við lánadrottna um að eftirstöðvar skulda yrðu greiddar upp á næstu 10 árum sem hafðist ekki. Það sem eftir stóð af verkefninu um uppsetningu á Vinnustofu Sjálfsbjargar í Reykjavík hinnar seinni voru mjög miklar skuldir, sem árið 2019 var ekki enn búið að greiða upp.

(Textahöfundur: Sævar Guðjónsson, 2019)