Menningarsjóður Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Reykjavík

Á aðalfundi Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Reykjavík 25. febrúar 1971 var tillaga um að stofna sjóð frá bazarnefnd og lagt yrði 30% af nettóhagnaði jólabazarsins 1971 í sjóðinn og framvegis sem var samþykkt. Hafi sjóðurinn þann tilgang að stuðla að menningar og fræðslustarfsemi í húsi Sjálfsbjargar Hátúni 12, Reykjavík og ber nafnið Menningarsjóður Sjálfsbjargar í Reykjavík og var samþykkt samhljóða. Á aðalfundi félagsins 23. febrúar 1972 var lögð fram reglugerð um Menningarsjóð Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Reykjavík.

  1. grein Nafn sjóðsins er Menningarsjóður Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Reykjavík.

2. grein Hlutverk sjóðsins er: Að styrkja og styðja menningarlegar framkvæmdir á vegum Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Reykjavík svo sem með kaupum á listaverkum, bókum, hljómflutningstækjum og öðru því er til menningarauka má telja.

3. grein Árlegar tekjur sjóðsins skulu vera 30% af bazarsölu félagsins, ásamt jafnháu framlagi úr félagssjóði þar til sjóðurinn er orðinn kr. 500.000,00, en þá skal framlag félagsins falla niður.

4.  grein Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur aðalmönnum og einum varamanni. Tveir aðalmenn kjörnir á aðalfundi til tveggja ára í senn og varamanninn einnig, þriðja aðalmanninn skipar stjórnin á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.

5.  grein Sjóðstjórn skal skipta með sér verkum og gjöra tillögur um fjárfestingu samkvæmt 2. grein þessarar reglugerðar.

6. Grein Allar tillögur sjóðstjórnar skulu bornar undir stjórn Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Reykjavík til samþykktar.

7.  grein Reikningsár sjóðsins skal vera almanaksárið og skulu endurskoðaðir reikningar liggja frammi á aðalfundi ár hvert.

8. grein Endurskoðendur félagsins skulu vera endurskoðendur sjóðsins.

9. grein Um breytingar á reglugerð þessari skulu gilda sömu reglur og um lög félagsins.

10.  grein Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.

Reykjavík 12. febrúar 1972 .

Hinrika Kristjánsdóttir, Eiríkur Einarsson, Inga Hannesdóttir, Ólöf Ríkharðsdóttir og Árni Sveinsson.

Sú hefð skapaðist að formaður félagsins var jafnframt formaður sjóðsins.

Í sérstakri fundargerðarbók sem merkt er „Menningarsjóður Sjálfsbjargar“ er að finna fjórar fundargerðir og sú fyrsta er frá 30. júní 1987. Þar kemur fram að í stjórn sjóðsins væru Trausti Sigurlaugsson formaður, Maggý Helga Jóhannsdóttir ritari og Sævar Guðjónsson gjaldkeri. Einnig kemur fram í fundargerðinni hvaða listaverk og muni Menningarsjóður Sjálfsbjargar, félags fatlaðra í Reykjavík, hefur keypt.

1. Keramik veggskreyting í anddyri Hátúns 12, Reykjavík með styrk frá Menntamálaráðuneytinu. Höfundur Guðný Magnúsdóttir.

2. Veggteppi, glitofið, í félagsheimili félagsins Hátúni 12, Reykjavík. Höfundur Svanborg Sæmundsdóttir.

3. Steindur gluggi á annarri hæð í Hátúni 12, Reykjavík að mestu gjöf frá Sonju Zorilla, Sigríði Jóhannsdóttir og Leifi Breiðfjörð. Höfundur Leifur Breiðfjörð.

4. Þrjár steinprentaðar myndir í dagvistun, Hátúni 12, Reykjavík. Þær voru keyptar fyrir gjafafé frá Sonju Zorilla. Höfundur Þórður Hall.

5. Hljómflutningstæki ásamt útvarpi og sérsmíðuðu borði í félagsheimili félagsins, Hátúni 12, Reykjavík.

6. Málverkið „Haustmorgunn í Hegranesi“. Höfundur Sigurður Sigurðsson.

Á fundi þann 10. nóvember 1987 er rætt um gjafir til félagsins eins og sjónvarp, myndbandstæki og þráðlaust magnarakerfi.

Á fundi sjóðsins þann 28. mars 1989 kemur fram að stjórn sjóðsins hafi samþykkt í nóvember 1988 að verða við tilmælum stjórnar félagsins um kaup á verðtryggðum spariskírteinum Ríkissjóðs Íslands að höfðu samráði við löggildan endurskoðenda félagsins. Kaupverð var 530.044,82 krónur nafnvirði var 500.000,00 krónur. Númer bréfanna var E1095-E1104.

Á fjórða fundi sjóðsins þann 27. júní 1989 er Ragnar Gunnar Þórhallsson orðinn formaður í stað Trausta Sigurlaugssonar. Tillaga kom um að sjóðurinn fjármagnaði kaup á tölvubúnaði fyrir félagið og það var samþykkt. Einnig var samþykkt að endurskoða verksvið Menningarsjóðs Sjálfsbjargar í framtíðinni í samráði við laganefnd félagsins.

Í aðalfundargerðum næstu ára er lítið að sjá um Menningarsjóðinn. Stundum kemur fram hver staða á sjóðnum er en engar upplýsingar um hvort og þá hvað hafi verið keypt fyrir eignir sjóðsins. Sagt er frá bazarsölu og innkomu af honum.

Árið 1995 er getið um það að bazarinn hafi gengið vel en einnig sagt að starfsemi bazarins eigi erfitt uppdráttar eftir að komið var í nýja félagsheimilið í suðaustur hluta Hátúns 12 við hliðina á sundlauginni.

Á aðalfundi 18. apríl 1998 er kosið í stjórn Menningarsjóðs Sjálfsbjargar í Reykjavík í síðasta sinn og eftirtaldir sátu í stjórninni eftir fundinn Sigurrós M. Sigurjónsdóttir, Hlaðgerður Snæbjörnsdóttir og Ólöf Ríkharðsdóttir.

Á aðalfundi 18. apríl 1998 var kosið í Bazarnefnd í síðasta sinn og eftirtaldir sátu í nefndinni eftir fundinn Hlaðgerður Snæbjörnsdóttir, Ruth Pálsdóttir og Viðar B. Jóhannsson.

(Textahöfundur: Sævar Guðjónsson, 2019)