Heiðursútnefningar Sjálfsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu

Á 25 ára afmælishátíð félagsins sem haldin var á veitingastaðnum Ártúni í Reykjavík þann 19. nóvember 1983 var Sigurður Guðmundsson fyrrverandi formaður útnefndur fyrsti heiðursfélagi félagsins og fékk hann heiðursskjal því til staðfestingar.

Árið 2006 var ákveðið að veita nýtt heiðursmerki sem ber heitið Lárviðarsveigur. Heiðursmerkið var útbúið af Sigmari Ó. Maríussyni félaga í Sjálfsbjörg félagi fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirfarandi reglur gilda um merkið árið 2019:

Lárviðarsveigurinn er æðsta viðurkenning sem Sjálfsbjörg félag fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu veitir og eftirfarandi reglur gilda um viðurkenninguna:

1. Sérstakt heiðursmerki sem hlotið hefur heitið „Lárviðarsveigur Sjálfsbjargar“

2. Merkið er merki félagsins sveipað lárviðarsveig og er úr gulli.

3. Hvert merki er númerað og haldin er skrá yfir þá í númeraröð sem hlotið hafa merkið þar sem fram kemur nafn viðtakanda, kennitala, stuttur rökstuðningur fyrir hvað viðkomandi hlaut merkið og dagsetning afhendingar og við hvaða tækifæri.

4. Merkið er æðsta viðurkenning sem Sjálfsbjörg félag fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu veitir og er veitt einstaklingum sem stutt hafa félagið sérlega vel. Viðtakandi þarf ekki að vera félagi í Sjálfsbjörg en þarf þó að hafa sýnt félagsskapnum einstakan velvilja. Tillaga um hver skuli hljóta viðurkenninguna skal koma til formanns félagsins með góðum fyrirvara og þarf samþykki meirihluta stjórnar fyrir viðurkenningunni. Viðurkenningin skal vera veitt við viðeigandi viðburð eins og til dæmis á stórafmæli viðkomandi, á afmæli félagsins eða aðalfundi. Ekki skulu að jafnaði fleiri en 1-3 hljóta merkið ár hvert.

5. Við andlát þess, er heiðursmerki hefur verið sæmdur, ber að skila merkinu aftur til Sjálfsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu.

Eftirtaldir einstaklingar hafa hlotið Lárviðarsveiginn:

Ólöf Ríkharðsdóttir var fyrsti félaginn til að fá Lárviðarsveig félagsins og útnefningin fór fram á aðalfundi félagsins þann 29. apríl 2006 í félagsheimili félagsins Sjálfsbjargarhúsinu, suðaustanmegin við hliðina á sundlauginni Hátúni 12, 105 Reykjavík. Ólöf veitti Lárviðarsveignum móttöku.

Guðríður Ólafsdóttir var annar félaginn sem fékk Lárviðarsveiginn og útnefningin fór fram á aðalfundi félagsins þann 28.apríl 2008 í félagsheimili félagsins í Sjálfsbjargarhúsinu, suðaustanmegin við hliðina á sundlauginni Hátúni 12, 105 Reykjavík. Guðríður veitti Lárviðarsveignum móttöku.

Sigfús Brynjólfsson var þriðji félaginn sem fékk Lárviðarsveiginn og útnefningin fór fram á aðalfundi félagsins þann 24. janúar 2018 í félagsheimili félagsins í Sjálfsbjargarhúsinu, suðaustanmegin við hliðina á sundlauginni Hátúni 12, 105 Reykjavík. Sigfús gat ekki veitt Lárviðarsveignum móttöku en honum var afhent merkið þann 17. febrúar 2018 á Borgarspítalanum, Fossvogi.

Hlaðgerður Snæbjörnsdóttir var fjórði félaginn sem fékk Lárviðarsveiginn og útnefningin fór fram á aðalfundi félagsins þann 13. mars 2019 í félagsheimili félagsins í Sjálfsbjargarhúsinu, suðaustanmegin við hliðina á sundlauginni Hátúni 12, 105 Reykjavík, inngangur 7. Hlaðgerður gat ekki veitt Lárviðarsveignum móttöku en henni var afhent merkið þann 15. mars 2019 á Hrafnistu, DAS (dvalarheimili aldraðra sjómanna) Brúnavegi 13.

(Textahöfundur: Sævar Guðjónsson, 2019; uppfært 2020)