Fyrstu lög Sjálfsbjargarfélaga

Fyrstu lög Sjálfsbjargarfélaga

Fyrstu lög Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Reykjavík voru tekin fyrir á framhaldsstofnfundi 10.júlí 1958 og síðan samþykkt á fundi félagsins þann 17. júlí 1958 og getið er um í fundargerð en lögin sjálf koma ekki fram í fundargerðinni eða næstu fundargerðum. Lögin fundust ekki hjá Borgarskjalasafni Reykjavíkur, Landsbókasafni Íslands eða Þjóðskjalasafni Íslands. Lög Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Siglufirði og nágrenni stofnað 9. júní 1958 [félagið hét „í Siglufirði“ en ekki „á Siglufirði“ í fyrstu lögum félagsins] og Sjálfsbjargar félags fatlaðra á Akureyri og nágrenni stofnað 8. október 1958 eru svo til samhljóma og koma hér að neðan. Áætla má að lög Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Reykjavík hafi verið svo til eins. Það var svo 03.06.2020 að Tímarit fatlaðra gefið út af Sjálfsbjörg – félagi fatlaðra Reykjavík í maí 1960 sem var fyrsti árgangur fannst í gögnum félagsins og þar voru lög félagsins sem voru að mestu leyti eins nema orðalag aðeins öðruvísi og búið var að stofna Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra á þeim tíma:

1.            grein. Félagið heitir Sjálfsbjörg – félag fatlaðra _______________________ heimili þess og starfsvæði er _______________________.

2.            grein. Markmið félagsins er að efla samhjálp hinna fötluðu, vinna að auknum réttindum þeirra og bættri aðstöðu í þjóðfélaginu, svo sem með því að:

a.            Styðja fatlað fólk til að afla sér þeirrar menntunar, bóklegrar og verklegrar sem það hefur löngun og hæfileika til.

b.            Aðstoða fatlað fólk til að leita sér starfs sem það er fært til að leysa af hendi í atvinnurekstri eða þjónustu.

c.            Stuðla að því að fatlað fólk geti sjálft rekið atvinnu sér til lífsframfæris.

d.            Efla félagsleg kynni og skemmtanalíf meðal fatlaðs fólks.

3.            grein. Félagsmaður getur hver sá orðið sem:

a.            Vegna líkamlegrar fötlunar hefur misst nokkuð af starfsorku sinni.

b.            Greiðir árstillag eins og það er ákveðið á aðalfundi fyrir hvert ár.

c.            Er samþykktur inn í félagið á lögmætum fundi.

d.            Heilbrigt fólk getur orðið styrktarfélagar, hefur það málfrelsi og tillögurétt á fundum félagsins en ekki atkvæðisrétt. Styrktarfélagi greiði sem lágmarksgjald sama árgjald og félagar greiða hverju sinni. Lágmarksgjald ævifélaga er tvítugfalt árstillag eins og það er á hvaða tíma. Félagsmanni má víkja úr félaginu með fundarsamþykkt ef hann verður sannur að sök að því að vinna gegn markmiði félagsins eða hagsmunum þess.

4.            grein. Félagsfundur er lögmætur ef hann hefur verið boðaður með þriggja sólahringa fyrirvara. Sé fundur eigi boðaður bréflega telst útvarpsauglýsing flutt tvisvar sinnum fullnægjandi fundarboð.

5.            grein. Reikningsár félagsins skal vera 1. október til 30. september.

6.            grein. Stjórn félagsins skipa 5 menn og 5 til vara, velja þeir úr sínum hópi formann, ritara og gjaldkera. Stjórn er kosin á aðalfundi til eins árs í senn, varastjórnarmenn taka sæti í forföllum aðalstjórnarmanna. Eigi má endurkjósa aðalstjórnarmann lengur en 3 ár í röð, eftir eitt ár er hann kjörgengur á ný. Þeir sem eru í stjórn annarra öryrkjasamtaka eru ekki kjörgengir til trúnaðarstarfa í félaginu. Allar kosningar skulu bundnar við uppástungur og vera skriflegar.

7.            grein. Aðalfund skal halda í september eða október ár hvert. Fastir dagskrárliðir aðalfundar skulu vera:

a.            Skýrsla félagsstjórnar um störf félagsins á síðastliðnu ári.

b.            Afgreiddir reikningar félagsins.

c.            Ákveðið árstillag félagsmanna og gjalddagi þess.

d.            Kosning 5 manna stjórnar, 5 manna varastjórnar og tveggja endurskoðenda.

e.            Rætt um starfstilhögun á komandi starfsári.

f.             Önnur mál.

8.            grein. Félagið verði deild í Landssambandi fatlaðs fólks er því verði komið á fót.

9.            grein. Til þess að breyta lögum þessum þarf að ræða og samþykkja breytingarnar á tveimur fundum í röð og sé annar fundurinn aðalfundur. Til venjulegra lagabreytinga þarf aðeins einfaldan meirihluta atkvæða, en til að slíta félagsskapnum eða sameina það öðrum félagsskap þarf 2/3 greiddra atkvæða á báðum fundunum er slíka tillögu tekur til meðferðar.

(Textahöfundur: Sævar Guðjónsson, 2019; uppfært 2020)