Gott aðgengi er lykillinn að því að hreyfihamlað (fatlað) fólk geti verið fullgildir þátttakendur í samfélaginu. Fötlun fólks getur verið margvísleg, svo sem skert hreyfigeta handa eða fótleggja eða sjónskerðing. Ennfremur þurfa flestir á sérstöku aðgengi að halda einhvern tímann á ævinni vegna tímabundinna aðstæðna eins og handleggsbrots, þungunar og þegar fólk er með börn í kerru. Margir eldri borgarar þurfa líka á sérstöku aðgengi að halda vegna skertrar hreyfigetu fyrir aldurs sakir.
Í byggingarreglugerð nr.112/2012 er m.a. áhersla á algilda hönnun sem gerir ráð fyrir að mannvirki séu þannig úr garði gerð að þau henti öllum. Sérstök áhersla er á að tekið sé tillit til þeirra sem eru hreyfihamlaðir eða búa við annars konar fötlun.
Þá felur vefaðgengi í sér að vefir á internetinu séu aðgengilegir öllum, líka fötluðum notendum, t.d. þeim sem eru hreyfihamlaðir, blindir, heyrnarlausir eða með skerta getu vegna aldurs. Á vef Velferðarráðuneytis er fjallað um að mikilvægt sé að aðgengi að rafrænni þjónustu sé hugsað út frá ólíkum hópum þjóðfélagsins.
Hér erum við fyrst og fremst að fjalla um aðgengi hreyfihamlaðs fólks þó eðlilega megi yfirfæra það á margvíslega fötlun.
Betra aðgengi öllum í hag!
Aðgengi og mannvirki
Hér getur þú meðal annars fengið upplýsingar um byggingarreglugerð sem tók gildi í janúar 2012 og hefur verið breytt síðar (2019 er nýjasta útáfan). HMS, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, hefur gefið út leiðbeiningar við byggingarreglugerð 112/2012 og sjást þær breytingar sem hafa verið gerða á reglugerðinni. Í leiðbeiningunum má t.d. finna hagnýtar upplýsingar um bílastæði hreyfihamlaðra s.s. stærð og fjölda sem hlutfall af almennum bílastæðum. Annað dæmi eru upplýsingar um snyrtingu sem hönnuð er á grundvelli algildrar hönnunar, þar má sjá í hvaða hæð tæki og fylgihlutir á snyrtingum eiga að vera. Leiðbeiningablöðin eru rúmlega 40 talsins og gefa hagnýtar upplýsingar um mismunandi svæði mannvirkja út frá algildri hönnun.
Athugið að efni hér er fengið af vef viðkomandi stofnana/fyrirtækja.