Umgjörð um „Sjálfsbjörg “ félag fatlaðs fólks í Reykjavík

Stofnfundur Sjálfsbjargar félag fatlaðs fólks í Reykjavík var haldinn í Skátaheimilinu við Snorrabraut föstudaginn 27.júní 1958. Í fundargerð kemur fram að um undirbúningsstofnfund sé að ræða til undirbúnings að stofnfundi um stofnun félags fatlaðs fólks. Eftirfarandi umgjörð var samþykkt um félagið.

  • Að hér með sé stofnað, félag á sama hátt og fatlað fólk á Siglufirði gerði 9 júní s.l., þar sem aðeins fatlað fólk hefur félagsréttindi.
  • Að félagið heiti „Sjálfsbjörg félag fatlaðs fólks í Reykjavík.
  • Að félagið gerist deild í landssambandi fatlaðs fólks er það verður stofnað.
  • Að verkefni félagsins skuli vera, að vinna að samhjálp hinna fötluðu, auknum réttindum þeirra og bættri aðstöðu í þjóðfélaginu.
  • Að stofnendur skuli teljast allir þeir er gangi í félagið fyrir næstu áramót.
  • Að félagið lýsi yfir algjöru hlutleysi í stjórnmálum.
  • Að kjósa á þessum fundi nefnd er undirbúi uppkast að lögum fyrir félagið og leggi það fyrir framhaldsstofnfund, er haldinn verði eins fljótt og við verður komið.

Síðan var kosin nefnd er undirbúa skyldi stofnfund félagsins. Í nefndina voru kosin, Sigursveinn D. Kristinsson, Gunnar Jóhannsson, Gils Sigurðsson, Helgi Eggertsson, Þorgeir Magnússon, Theodór A. Jónsson, Edda B. Guðmundsdóttir, Svanhildur B. Albertsdóttir og Sigfús Brynjólfsson. Þá var samþykkt eftirfarandi símskeyti til „Sjálfsbjargar“ á Siglufirði.

Í fundargerðinni kom þessi texti síðar “Stofnfundur Sjálfsbjargar félags fatlaðra í Reykjavík fagnar stofnun Sjálfsbjargar á Siglufirði og þakkar félögum þar ágætt frumkvæði.“. Hér kemur fram að um stofnfund sé að ræða en ekki undirbúningsfund og að félagið heiti Sjálfsbjörg félag fatlaðra í Reykjavík þrátt fyrir lið tvö hér að ofan.

(Textahöfundur: Sævar Guðjónsson, 2019)