Bílastæði hreyfihamlaðra

Í byggingareglugerð nr. 112/2012 er tilgreint hvernig bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera. Á vef Mannvirkjastofnunar má sjá leiðbeiningar um bílastæði fatlaðra sem unnar eru út frá reglugerðinni. Hér fyrir neðan eru helstu atriðin í leiðbeiningunum dregin út.  Til að fá nánari upplýsingar er nauðsynlegt að skoða leiðbeiningablöðin.

  • Bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera sérmerkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti.  Þau skulu vera sem næst aðalinngangi bygginga, ekki fjær en u.þ.b. 25m. Þar sem því verður komið við skal stæðum fyrir hreyfihamlaða komið fyrir á svæðum sem eru upphækkuð í gangstéttarhæð og tengd gangstéttum.
  • Hindrunarlaus leið skal vera frá bílastæðum hreyfihamlaðra að aðalinngangi byggingar.
  • Bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera 3,8 m x 5,0 m að stærð.  Fimmta hvert stæði fyrir hreyfihamlaða skal vera 4,5 m x 8,0 m að stærð (fyrir ferðaþjónustubíla með lyftu að aftan). Þó skal aldrei vera færri en eitt slíkt við hverja byggingu.
  • Í leiðbeiningunum má einnig sjá töflur um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðar/-og samkomuhús sem dæmi.

Bílastæði sem tilheyra húsfélagi:

Húsfélag þarf að taka ákvörðun um hvernig bílastæði sem tilheyra húsinu eru notuð, fyrir utan þau bílastæði sem eru þinglýst eign íbúa. Það kemur fram í eignaskiptasamningi ef bílastæðin eru eign ákveðinna aðila. Í Lögum um fjöleignarhús 26/1994 er í 8.grein 5.lið fjallað um hvað telst til sameignar:
„Öll lóð húss og mannvirki, búnaður og tilfæringar á henni, þar með talið bílastæði, nema þinglýstar heimildir kveði á um að það sé séreign eða það byggist á eðli máls“.
Það þarf því að taka það upp á húsfundi hvernig notkun á bílastæðum á að vera eða fyrir hverja stæðin eru hugsuð. Við höfum hreyrt dæmi þess að hreyfihamlaðir íbúar í fjölbýli þar sem íbúðir hafa ekki sérmerkt stæði hafi leitað eftir því við viðkomandi húsfélag að fá sérmerkt stæði fyrir sig sem er merkt með fatlaðamerki og bílnúmeri bílsins og hefur það víða gengið upp en það eru líka dæmi þess að húsfélagsfundur hafi hafnað slíkri beiðni.

Oft eru einhver stæði fyrir framan innganga fjölbýlis merkt fötluðum og eru þau stæði almennt ætluð fötluðum gestum eða sjúkrabifreiðum, en ekki hugsuð fyrir fatlaða íbúa – húsfélagafundur þarf að fjalla um þessi mál og ákveða hvernig stæðismálin eru ákveðin.

Breytingar vegna bílastæða og sérmerkingar:

Ef það þarf að breyta lóðinni til að gera fleiri bílastæði við inngang hússins þarf að hafa samband við skipulagsnefnd í sveitarfélaginu.

Ef bílastæðið er á einkalóð þarf ekki að sækja um leyfi fyrir merkingu stæðisins en annars þarf að hafa samband við skipulagsnefnd sveitarfélagsins.

Á vef Vegagerðarinnar má sjá merkingar sem notaðar eru til að merkja bifreiðastæði og sérstaka umferð fyrir fatlað fólk. Merkið sem notað er fyrir bifreiðastæði fatlaða flokkast sem J11.11 en einnig er hægt að nota merki D01.21 og merki D11.11 er notað við leiðir sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir umferð fatlaðra.

Merkingar fyrir sérmerkt bílastæði:

Fyrirtækið Merking býr til skilti fyrir sérmerkt bílastæði.

Bílastæðamálun:

Fyrirtækið B.S Verktakar býður fyrirtækjum, bæjarfélögum, húsfélögum og öðrum upp á málun bílastæða og aðrar skyldar merkingar svo sem stæði fatlaðra.

Fyrirtækið GSG býður fyrirtækjum, bæjarfélögum, húsfélögum og öðrum upp á málun bílastæða fyrir fatlaða.