P- merki

Hvernig sæki ég um P-merki?

Stæðiskortið (P-merkið) er gefið út af sýslumannsembætti á því svæði sem þú býrð á og það er gefið út á persónu en ekki bílnúmer og er einungis heimilt að gefa út eitt kort á hvern einstakling. Til að sækja um P-merkið þarf að fylla út umsókn á vef viðkomandi sýslumanns:

Umsókninni þarf að fylgja:

  1. Læknisvottorð um hreyfigetu og sendir læknirinn það beint á næsta sýslumannsembætti.
  2. Þá þarf að koma hefðbundinni passamynd af umsækjanda til sýslumannsins – fyrr verður stæðismerkið ekki unnið.
  3. Þá þarf að mæta á sýslumannsskrifstofuna og gefa undirritunarsýnishorn þess sem stæðismerkið er stílað á.
  4. Þá má sækja stæðismerkið nokkrum dögum síðar eða láta póstsenda það heim til umsækjandans.

Ef foreldri/forráðamaður sækir um P-merki fyrir fatlað barn, þá á mynd af barninu að fylgja með umsókninni. Ef viðkomandi getur ekki gefið rithandarsýnishorn er því sleppt.

Stofnun eða heimili þar sem dvelja hreyfihamlaðir einstaklingar getur sótt um sameiginlegt stæðis­kort fyrir bifreið í sinni eigu til flutnings fyrir hreyfihamlaða einstaklinga. Skilyrði fyrir útgáfu slíks korts er að það sé eingöngu notað við slíkan flutning en ekki við annars konar nýtingu bifreiðar­innar. Læknisfræðileg viðmið, sbr. 2. mgr. 3. gr., skulu lögð til grundvallar við mat á beiðni og afgreiðslu. Sjá nánar Reglugerð nr. 1130/2016 um útgáfu og notkun stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða.

Það kostar ekkert að fá P-stæðiskort og það er yfirleitt tilbúið eftir 2-3 daga eftir að öll gögn hafa borist til sýslumanns og þarf þá að sækja það eða láta senda í pósti á herimili viðkomandi.
Stæðiskortið er gefið út í tiltekinn tíma, að hámarki 5 ár en ekki skemur en 2 ár.  Ef þörf er tímabundin má gefa út stæðiskort í skemmri tíma (jafnvel nokkra mánuði en það þarf að koma fram í læknisvottorði að þörfin sé tímabundin). Ef vetrarfærð veldur hreyfihömlun sérstaklega má gefa út stæðiskort er gildir fyrir tímabilið frá 15. október til 1. maí.

Endurnýjun P- merkis

Þegar sótt er um endurnýjun P-merkis þarf að skila inn sömu gögnum og þegar sótt er um í fyrsta skipti.

Hvert fer ég með umsókn um P-merki?

Einstaklingar sem búsettir eru á höfuðborgarsvæðinu fara með umsóknina á skrifstofu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu að Hlíðarsmára 1, 201 Kópavogi. Einstaklingar búsettir í öðrum sveitarfélögum sækja um hjá sýslumanni í sinni heimabyggð.

Hvernig nýtist P-merkið?

Hreyfihamlaðir einstaklingar eiga rétt á P-merki sem gefur þeim leyfi til að leggja í sérmerkt stæði fyrir fatlað fólk. Tryggja þarf að framhlið merkisins og gildistími sjáist vel í framrúðu bílsins, annars er mögulegt að gefin sé út sekt ef kortið er skoðað. 

Hreyfihamlaðir einstaklingar sem ekki eru með bílpróf geta einnig átt rétt á P-merki, sjá grein nr. 2 í reglugerð hér fyrir neðan.

Hreyfihamlaðir einstaklingar með P-merki hafa leyfi til að leggja í stæði þar sem gjaldskylda er (stöðumælir) án þess að greiða í stöðumælinn, þetta á þó ekki við um bílastæðahús.

Plastvasa utan um P-merkið sem hægt er að festa í framrúðu bílsins, má fá í Þjónustuveri Reykjavíkurborgar (Borgartúni 12 – 14).

Ferðalög erlendis

Sýslumenn gefa út P-merki Evrópusambandsins sem gilda innan Evrópusambandsríkja og einnig víðar. Í umsókninni um P-merki þarf að merkja sérstaklega við hvort að þörf sé á að nota stæðiskortið í öðru EES-ríki.

Í bæklingi  frá Evrópusambandinu má finna upplýsingar um notkun á stæðiskorti fatlaðs fólks innan Evrópusambandsins og skilyrði í hverju aðildarríki.

Innan Bandaríkjanna er misjafnt eftir fylkjum hvort sækja þarf sérstaklega um P-merki eða hvort tekin séu gild P-merki annarra ríkja. Í Bandaríkjunum sér Department of Motor Vehicles um útgáfu P-merkja. Í Florida þarf að sækja sérstaklega um skammtíma P-merki.

Hægt er að kynna sér upplýsingar um notkun stæðiskort fyrir fatlaða ferðamenn eftir löndum á vefsíðu FIA

Erlendir ferðamenn

Erlendir ferðamenn sem hafa fengið útgefið P-merki í sínu heimalandi geta notað þau á Íslandi. Merkin þurfa að vera vel sýnileg í framrúðu bílsins. Sjá einnig nánar upplýsingar fyrir erlenda ferðamenn með P-merki  á vefsíðu FIA