Samvera og súpa

Verkefnið „Samvera og súpa“ sem einnig gekk undir heitinu Súpueldhúsið var sett á laggirnar á vegum stjórnar Sjálfsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Frumkvöðlar að þessu verkefni voru Jóhannes Þór Guðbjartsson framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu og Einar Þórður Andrésson húsvörður í Hátúni 12 en fyrstu umsjónaraðilar samveru og súpu voru Ása Hildur Guðjónsdóttir og Örn Sigurðsson.
Verkefnið byrjaði 7. febrúar 2001 þar sem boðið var upp á súpu og brauð á 150,00 krónur og var opið frá 12:30 til 15:00 alla virka daga og horft var sérstaklega til einstaklinga á Hátúnsreitnum það er í blokkunum Hátúni 10, 10a, 10b og Hátúni 12. Mætingin var strax mjög góð og komu um 25-30 manns á dag, í mars 2001 mættu 413 í súpu og 110 til viðbótar til að njóta samverustundar í góðum félagsskap til dæmis að spila á spil, hlusta á tónlist, spjalla eða hvað sem fólk hafði áhuga á. Í upphafi var verkefnið hugsað til reynslu í tvo mánuði en þörfin var mjög mikil og gaf mörgum mikið þegar þeir fóru og hittu fólk og naut samverunnar með þeim þannig að verkefnið stóð yfir í fjóra mánuði. Verkefnið var sett á bið frá 15. júní 2001 en framkvæmdaaðilar voru sammála um að því yrði að halda áfram á haustdögum en fyrst þyrfti að huga að að fjárhagslegu hlið verkefnisins, þrátt fyrir að hráefni hafi verið gefið eða fengið á lágu verði þá yrði ekki hægt að stóla á það til frambúðar. Þá kallaði verkefnið á að breytingar yrðu gerðar á eldhúsi til að uppfylla ýtrustu kröfur heilbrigðiseftirlitsins. Einnig þurfti að útvega umsjónaraðila með verkefninu og sjálfboðaliða bæði til að vinna við súpugerð og til að vera með í samverustundunum. Árið 2002 var komið samstarf við Láru Björnsdóttir félagsmálafulltrúa Reykjavíkurborgar vegna verkefnisins.
Næstu árin var lítið unnið í verkefninu en 1. febrúar 2005 hófst samstarf um verkefnið „Samvera og súpa“ og umsjónaraðili var Guðrún Kr. Þórsdóttir djákni í Laugarneskirkju í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands og félagið. Opið var á þriðjudögum frá 11:00 til 15:00. Árið 2006 hélt Guðrún Kr. Þórsdóttir djákni í Laugarneskirkju áfram með samveru og súpu auk þess sem Rauði krossinn kom inn í starfið og gekk vel og starfið var í höndum Guðrúnar næstu árin sem einnig veitti forstöðu starfsins á Hátúnstorfunni það voru húsin Hátún 10, 10a, 10b og Hátún 12. Það voru svo sjálfboðaliðar sem sáu um súpugerðina.
Á vordögum 2012 var ákveðið að Jóna Marvinsdóttir félagi í félaginu tæki verkefnið yfir en hún hafði verið sjálfboðaliði í súpugerðinni. Jóna tók svo við verkefninu á haustdögum 2012 og hafði Þórunni Elíasdóttir sér við hlið og ákveðið var að hafa einnig súpudag á fimmtudögum til prufu og hafa opið frá 11:30 til 13:30 báða dagana en svo breyttust fimmtudagarnir úr súpu yfir í spjall og kaffi en lögðust svo af.
Árið 2014 byrjaði Sölufélag garðyrkjumanna að gefa félaginu grænmeti sem notað var með súpunni og brauðinu. Fólk gat tekið grænmeti með sér heim. Einnig gafst fólki kostur á að fá sér brauð frá Reyni bakara og mjólkurvörur frá fyrirtækinu „Arna“.
Á haustdögum 2017 tók félagið alfarið yfir rekstur verkefnisins „Samvera og súpa“ og nýir umsjónaraðilar voru Ólína Ólafsdóttir og Guðrún Elísabet Bentsdóttir tóku við og boðið var upp á súpu og brauð á 350,00 krónur eins og áður á þriðjudögum og var félagsheimilið opið frá 10:00 til 14:00 en súpan var afgreidd milli 11:30 og 13:00 frá september fram í maí.
Styrkir komu frá Reykjavíkurborg, öðrum sveitarfélögum á starfssvæði félagsins, Öryrkjabandalagi Íslands og félagið lagði félagsaðstöðuna til endurgjaldslaust.
Árið 2019 var boðið upp á súpu alla þriðjudaga frá 8. janúar 2019 til 7. maí 2019 og svo 24. september 2019 til 10. desember 2019.

(Textahöfundur: Sævar Guðjónsson, 2019)