P – stæði

Bílastæði hreyfihamlaðra

Á kortavef Access Iceland og Wheelmap má finna bílastæði fyrir hreyfihamlað fólk.  Á Wheelmap skrá notendur sjálfir inn upplýsingar um aðgengilega staði fyrir hjólastóla. 

Almennt P-stæði fyrir íbúa og gesti

Reykjavík:

Sótt er um að fá P-merkt stæði sett upp við íbúðarhúsnæði með því að senda erindi til Þjónustumiðstöðvar Háaleitis- og Laugardals. Þegar heimild hefur verið fengin setur bílastæðasjóður merkið upp. Sé um fjölbýli að ræða þarf samþykki húsfélags. Stofnanir hafa samband við samgöngustjóra hjá Reykjavíkurborg til þess að fá P-merkt stæði hjá sér. 

Sérmerkt P-stæði:

Ef íbúi í fjölbýlishúsi sem er með  P-stæðiskort þarf að hafa sérmerkt P-stæði sem hann einn hefur afnot af (merkt bílnúmeri). Þá í fyrsta lagi þarf samþykki húsfélagsins til að merkja eitt stæðið (ef hver íbúi er ekki með eigið stæði) og er viðmiðið að húsfélagið borgi uppsetningu á stæðinu en viðkomandi borgi fyrir sjálft skiltið, enda sé það sérmerkt með bílnúmeri og hann getur flutt það með sér ef svo vill til. Það eru vinnureglur Reykjavíkurborgar. 

Síðan er almenn krafa að við fjölbýlishús sé tiltekinn fjöldi merktra stæða fyrir fatlaða við húsið. Þau stæði eru almennt ekki ætluð fyrir fatlaða íbúa að leggja í, heldur eru þau ætluð fyrir fatlaða gesti og sjúkrabifreiðar.
  

Önnur sveitarfélög:

Íbúðarhúsnæði á einkalóð: Íbúi/-ar setur sjálfur upp merkið og greiðir kostnað við það. 

Eins og nefnt hefur verið, að ef um fjölbýli er að ræða þarf samþykki húsfélagsfundar fyrir því að merkið verði sett upp og húsfélög greiða kostnað. Ef um lóð viðkomandi sveitarfélags ræðir er yfirleitt haft samband við skipulags-/framkvæmdadeildir-/gatnadeild þess og starfsmenn bæjarins sjá um uppsetninguna. 

Breytingar vegna bílastæða og sérmerkingar:

Á vef Vegagerðarinnar má sjá merkingar sem notaðar eru til að merkja bifreiðastæði og sérstaka umferð fyrir fatlað fólk. Merkið sem notað er fyrir bifreiðastæði fatlaða flokkast sem  J11.11 en einnig er hægt að nota merki  D01.21 og merki  D11.11 er notað við leiðir sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir umferð fatlaðra.

Merkingar fyrir sérmerkt bílastæði:

Fyrirtækið Merking býr til skilti fyrir sérmerkt bílastæði. Kostnaður getur verið misjafn og fer eftir stærð skiltisins hér eru nokkur verðdæmi sem starfmaður gaf upp símleiðis – ath. verðin breytast (10.01.2017):

  • 5.500 kr. + vsk, lítið merki með bílnúmeri 
  • 7.500 – 8.000 kr. + vsk. stærra merki með bílnúmeri, hjólastól og endurskin
  • 20.-25.000 kr. + vsk. stórt með staur

Bílastæðamálun:

Fyrirtækið B.S Verktakar býður fyrirtækjum, bæjarfélögum, húsfélögum og öðrum upp á málun bílastæða og aðrar skyldar merkingar svo sem stæði fatlaðra.

Fyrirtækið GSG býður fyrirtækjum, bæjarfélögum, húsfélögum og öðrum upp á málun bílastæða fyrir fatlaða. 

Fyrirtækið Bilastaedamalun.is býður upp á bílastæðamálun víða um land.

Stofnkostnaður við að mála eitt P-stæði getur numið um 50.000 kr. (verð breytast – upplýsingar frá 2017).

Ef þú veist um fleiri fyrirtæki sem sinna bílastæðamálun eða gera skilti fyrir sérmerkt bílastæði þá mátt þú vinsamlegast láta okkur vita.  Hægt er að senda okkur skilaboð á facebook síðu okkar eða hafa samband hér

Reglugerð

Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er tilgreint hvernig bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera. Á vef Mannvirkjastofnunar má sjá leiðbeiningar  sem unnar eru út frá reglugerðinni. Hér fyrir neðan eru helstu atriðin í leiðbeiningunum dregin út.  Til að fá nánari upplýsingar er nauðsynlegt að skoða leiðbeiningablöðin.

  • Bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera sérmerkt á yfirborði og einnig með lóðréttu skilti.  Þau skulu vera sem næst aðalinngangi bygginga, ekki fjær en u.þ.b. 25m. Þar sem því verður komið við skal stæðum fyrir hreyfihamlaða komið fyrir á svæðum sem eru upphækkuð í gangstéttarhæð og tengd gangstéttum.
  • Hindrunarlaus leið skal vera frá bílastæðum hreyfihamlaðra að aðalinngangi byggingar.
  • Bílastæði hreyfihamlaðra skulu vera 3,8 m x 5,0 m að stærð.  Fimmta hvert stæði fyrir hreyfihamlaða skal vera 4,5 m x 8,0 m að stærð (fyrir ferðaþjónustubíla með lyftu að aftan). Þó skal aldrei vera færri en eitt slíkt við hverja byggingu.
  • Í leiðbeiningunum má einnig sjá töflur um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða við íbúðar/-og samkomuhús sem dæmi.