Sumarhúsa áætlanir Sjálfsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu

Það fyrsta sem til er um sumarhúsagerð hjá Sjálfsbjörg félagi fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu er frá stjórnarfundi 8. janúar 1980 þar sem rætt var um tilboð frá Húsafelli um byggingu sumarbústaðar og leigu lands í Húsafellslandi í Borgarfirði en eftir umræður var ákveðið að afþakka boðið og vísa málinu til Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra.

Á fyrstu mánuðum ársins 1991 er rætt um sumarhúsamál félagsins og Jón H. Sigurðsson bóndi að Úthlíð í Biskupstungum og félagsmaður í félaginu bauð félaginu lóð undir sumarbústað en ákveðið var að fresta ákvörðunum um sumarhús þar til vinnustofumál félagsins væru komin á betri veg.

Á aðalfundi 9. apríl 1994 kemur fram að búið var að sækja um styrk til Framkvæmdasjóðs fatlaðra vegna byggingar sumarbústaðar á lóð félagsins í Úthlíð í Biskupstungum. Þess er síðan getið á aðalfundi 1. apríl 1995 að búið er að gera leigusamning við Magnús Hjaltested á Vatnsenda við Elliðavatn um leigu félagsins á landskika við Elliðavatn og var leigutíminn til 50 ára frá 01.04.1995. Þetta þótti bæði betri og ódýrari kostur en að nota lóð félagsins við Úthlíð í Biskupstungum auk fjarlægðarinnar frá Reykjavík. Árið 1995 var landinu á Vatnsenda gefið nafnið Sólbakki í höfuðið á húsi Sigurðar Guðmundssonar formanns félagsins til næstum 15 ára [14.09.1962 til 22.02.1977] en Sólbakki stóð við Laugalæk í Reykjavík og þar voru stundum haldnir stjórnarfundir í Sjálfsbjörg félagi fatlaðra í Reykjavík. Þann 9. júní 1996 var greinin „Beitiland verður útivistarsvæði fyrir fatlaða“ birt á vefsíðunni MBL.is [finnst einnig á TIMARIT.is] og þar var fjallað ýtarlega um svæðið sem Magnús Hjaltestad eigandi Vatnsendajarðarinnar útvegaði félaginu og hvað fyrirhugað var að gera á landinu Sólbakka. Síðar kom í ljós að nafnið Sólbakki var til á öðrum stað við Elliðavatn og var því kallað eftir hugmyndum að nýju nafni á staðinn og í lokin var kosið á milli nafnanna Kriki sem fékk 15 atkvæði, Sólvellir sem fékk 12 atkvæði og Vinaminni sem hlaut 9 atkvæði. Útivistarsvæðið var svo formlega opnað á 40 ára afmæli félagsins 27. júní 1998 og fékk þá nafnið Kriki en þá hafði Reykjavíkurborg gefið 35 fermetra hús á landið við Elliðavatn og árið 2018 var þessi hluti af húsinu notaður sem eldhús og salerni.
Á afmælishófi félagsins á Hótel Sögu 31. október 1998 var Magnúsi Hjaltestad veitt sérstök viðurkenning fyrir hans mikla framlag í að félagið var komið með útivistarsvæði við Elliðavatn.

Árið 2002 var ákveðið að ræða við Kópavogsbæ um sölu á Krika þar sem byggingin var illa farin og lítið hægt að framkvæma vegna fjárskorts og einnig hafði notkun á Krika ekki verið mikil. Kópavogsbær lofaði aðstoð fjárhagslegri og í formi vinnuframlags þarna eins og svo oft átti félagið hauk í horni þar sem Kópavogsbær var.

Árið 2003 var opið í Krika frá maí fram í ágúst og opið var frá fimmtudegi til og með sunnudegi en lokað var á mánu- þriðju- og miðvikudögum þetta árið skráðu 251 sig í gestabók en árið 2004 er svo farið að vera opið alla daga vikunnar og hefur verið það síðan. Síðan hefur lengst sá tími á árinu sem opið var í Krika og fjöldi þeirra sem skráðu sig í gestabækur hefur stóraukist.

Árið 2004 var farið í fjársöfnun fyrir endurnýjun á Krika og jafnvel byggingu nýs húss og gekk fjáröflunin mjög vel. Kópavogsbær lofaði enn og aftur aðstoð og ætlaði að bæta aðgengi hjá útivistarsvæðinu Krika.

Árið 2005 gaf Kópavogsbær félaginu rúmlega 50 fermetra hús og var hugmyndin að tengja það við gömlu bygginguna með bíslagi. Húsið var sett niður á haustdögum 2007 og síðan fór formleg opnun á fimmtíu ára afmæli félagsins 27. júní 2008. Í nýrri hlutanum varð stofa og aðal samverustaðurinn. Kópavogsbær aðstoðaði mikið við þessar breytingar og það var ákveðið að veita bænum viðurkenningu fyrir ómetanlegan stuðning og velvilja í garð félagsins við uppbyggingu á sælureitnum Krika frá upphafi starfseminnar.

Aðal umsjónaraðilar að Krika á þessum tíma voru Kristín Magnúsdóttir og Sigurður Pálsson.
Árið 2006 kom Kjartan Jakob Hauksson kafari á laggirnar „Bátadegi“ þar sem gestum var boðið að sigla á kajökum á Elliðavatni og varð þessi bátadagur að árlegum viðburði.

Árið 2007 var farið í breytingar á aðstöðu í gamla húsinu í samráði við Kristínu R. Magnúsdóttir sem hafði verið í forsvari fyrir Krika árin á undan. Um 830 manns mættu í Krika árið 2007 og voru föstu[pylsu]dagarnir og sunnu[vöfflu]dagarnir vinsælastir. Árið 2008 eru umræður um framkvæmdir á gólfflötum í báðum húsum og áætlað að það væru um 80-90 fermetrar.

Krikastarfið 2009 gekk vel og Hlaðgerður Snæbjörnsdóttir gaf félaginu skilti/skjöld með nafninu Kriki. Á árinu mættu um 1.200 manns. Á árinu 2010 komu ýmsir hópar og nutu verunnar í Krika eins og til dæmis Félagsmiðstöðin Aflagranda, klúbburinn Geysir, Sjálfsbjargarheimilið og Halaleikhópurinn. Þessir hópar mættu síðan árin á eftir. Svo fengu nemendur og kennarar Vatnsendaskóla afdrep í Krika á útidögum skólans.
Fjölgun komna í Krika jókst með hverju árinu og voru um 1.400 árið 2011. Árið 2012 fór Jóna Marvinsdóttir að vinna við hlið Kristínar R. Magnúsdóttir í Krika og tók svo við árið 2015. Á árinu var húsið merkt með einkennisnúmeri og beiðni send til Kópavogsbæjar um að setja skilti upp við hringtorgið sem keyrt er niður hjá til að komast í Krika sem á stæði „Kriki“.
Árið 2016 þurfti að gera við rotþrónna hjá Krika og músaplága var.

Árið 2017 tók Ólína Ólafsdóttir við umsjón með Krika.Farið var í þakviðgerðir. Ákveðið var að fá nettengingu í Krika.
Notkun og viðvera á þessum sælustað hefur aukist ár frá ári og árið 2017 var opið alla daga vikunnar frá maí fram í september og voru á fjórða þúsund komur.
Í upphafi sumars 2018 var farið í framkvæmdir á húsnæði sumarhússins og meðal annars rifinn geymsluskúr og nýr geymsluskúr byggður í staðinn og var með öllum þægindum.
Á vordögum 2019 var farið í miklar endurbætur í Krika við Elliðavatn. Gólf í gamla húsinu tekið upp og lagað það sem laga þurfti og sett ný einangrun, sett músanet og vatnsheldar spónaplötur. Veggur milli salerna tekin niður og nýr veggur settur upp með tveim aðgengilegum salernum fyrir alla, keypt voru ný blöndunartæki við vaska á salernum og sett tvö upphengd salerni og lagnir settar í kassa. Húsin voru fest saman. Veggir á tvo vegu rifnir í gamla húsinu og klæddir upp á nýtt. Gamla húsið málað. Gólfefni sett á bæði húsin. Í eldhúsi voru tveir nýir skápar settir upp ásamt nýjum sökklum og nýrri borðplötu. Rafmagn endurnýjað í gamla húsinu. Lagaðar pípulagnir í húsinu. Keypt var ný 60 cm. uppþvottavél.

Þrátt fyrir stanslausar framkvæmdir í Krika þá hefur það ekki bitnað á sjálfri starfseminni. Félagið er í sömu aðstöðu og aðrir sumarbústaðareigendur að þörf á viðhaldi staðarins er eilífðarverkefni.

(Textahöfundur: Sævar Guðjónsson, 2019)