Í leiðbeiningablöðum Mannvirkjastofnunar Inngangsdyr / útidyr og svala-/garðdyr leiðbeiningablað 6.4.2. um algilda hönnun tengt útidyrum má finna eftirfarandi:
- Utan við aðalinngang skal vera pallur eða flötur sem er minnst 1,80 m x 1,80 m og má að hámarki halla frá byggingunni 1:40 eða 2,5%.
- Hámarks hurðarátak er 25 N (um það bil 2,5 kg), svo fólk með takmarkaðan kraft í fingrum og höndum geti opnað hurðina.
- Hliðarrými utan við inngangshurð skal vera að lágmarki 0,70 m skráarmegin, svo einstaklingar í hjólastólum hafi athafnarými.
- Breiddin frá hurð að mótlægum dyrakarmi á að vera að lágmarki 87 cm að breidd og 207 cm að hæð. Ef handfang á hurðinni er nálægt lömum þarf að auka breiddina sem því nemur.
- Þröskuldur við útidyr ætti ekki að vera hærri en 25 mm í byggingu fyrir hreyfihamlaða.
- Fyrir framan inngangsdyr er æskilegt að setja annað yfirborðsefni til að auðvelda sjónskertum að finna þær.
- Yfirborðsefni við inngangsdyr á að vera þannig að sjónskertir sjái það auðveldlega og þannig að þeir sem nota hvíta stafinn finni auðveldlega fyrir því. Slíkt má til dæmis gera með niðurfelldri rist, sem er í sömu hæð og gólfefnið eða með stálplötum, flísum eða hellum sem eru með upphleyptu munstri/hnöppum.
- Ristar mega að hámarki vera með 9mm stór ristargöt svo hvíti stafurinn fari ekki í gegnum ristina.
- Hnappar/munstur mega að hámarki vera 5mm að hæð.
- Litamismunur á yfirborðsefnum við inngang skal vera að lágmarki LRV 60 eða NCS 0,75
- Sjálfvirkur opnunarbúnaður skal vera á útidyrum og inngangsdyrum (þetta gildir ekki um sérbýlishús og inngangsdyr íbúða). Sé notaður rofi fyrir opnunarbúnað á hann að vera í um það bil 1 m hæð, að minnsta kosti 0,5 m frá kverk/innhorni og hann á að vera skráarmegin við dyr sem eru á lömum. Hurðarrofar skulu vera greinilegir í lit sem aðgreinir sig vel frá vegg og vera merktir sérstaklega með texta (t.d. hurðarrofi) og tákni (t.d. hjólastólamerki).