Ýmislegt

Hér má lesa ýmislegt fróðlegt úr fundargerðum Sjálfsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu í gegnum árin.

Stjórnarfundur 02.12.1959 rætt um að efna til kabaretts.

Stjórnarfundur 20.12.1959 rætt um starfsmöguleika Öryrkjasamtaka á Íslandi. Fundarmönnum fannst mest knýjandi stofnun vinnumiðlunarskrifstofu fatlaðra og að komið yrði á fót stofnun þar sem fatlaðir gætu dvalist á.

Almennur félagsfundur 08.01.1960 framsaga var um byggingamál og talið var heppilegast að byggð yrðu tveggja hæða íbúðahús ekki hvað síst fyrir einhleypa og þar yrðu einnig samkomuherbergi til félagslegra starfa. 1) að koma upp æfingastöð til lækninga 2) vinnuþjálfunarstöð sem þyrfti að vera svo stór að hún gæti komið að fullum notum 3) húsnæði fyrir skrifstofu vegna þess að núverandi bækistöð félagsins að Sjafnargötu [14] væri of lítið vegna þrengsla 4) húsnæði fyrir utanbæjarmenn sem staddir væru í bænum til lækninga 5) félagsheimili 6) íbúðir en þær yrðu a) fyrir fjölskyldur og b) fyrir einhleypa. Eins og nú væri ástatt væri nær ógjörningur fyrir fatlað fólk að koma sér upp íbúðum af eigin rammleik.

Stjórnarfundur 29.02.1960 rætt um lagaákvæði varðandi skerðingu örorkubóta við vaxandi tekjur. Ákveðið að rita öllum alþingismönnum bréf og skýra sjónarmið hins fatlaða.

Almennur félagsfundur 14.07.1960 Björn Jónsson [alþingismaður] sagði að það gæti komið til mála að afla tekna fyrir Sjálfsbjargarfélögin með skatti á gosdrykkjatöppum að hálfu.

Fundur 16.02.1961 álit og tillögur milliþinganefndar um öryrkjamál sem snerta Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra. Í 4. grein frumvarpsins er tillaga um aðstoð við Sjálfsbjörg landssamband fatlaðra en hún hljóðar svo. „Fé því sem, aflað er samkvæmt lögum þessum skal varið til byggingar og rekstrar vinnuheimilis Sjálfsbjargar – landssamband fatlaðra.“ Fyrsta skrefið væri að Alþingi legði skatt á sælgætið og með því fengist um leið opinber viðurkenning fyrir félaginu. Haukur Kristjánsson læknir skýrði frá að nokkrir fulltrúar úr 6 öryrkjafélögum hefðu komið saman til undirbúnings að sambandi öryrkjafélaganna sem ynni að sameiginlegum málum. Bréf sent á milli stjórnar Sjálfsbjargar og sendiráðs Íslands í Sovétríkjunum um fyrirspurn um lyf.

Fundur 03.04.1964 flutningur vegna vinnustofu farið út í happdrætti og aðalverðlaun Trabant bifreið.

Fundur 08.10.1965 búið að festa kaup á 75 fermetra kjallaraíbúð að Mávahlíð 45 fyrir félagsstarfið fyrir afkomu happdrættis. Rætt um væntanlega byggingu landssambandsins og búið var að úthluta 15.000 fermetra lóð. Byggingin á að innihalda vistheimili, vinnustofu, gerfilimasmið, orthopedi skósmið, íbúðir sérstaklega innréttaðar fyrir fatlaðar húsmæður og þá sérstaklega þær sem eru í hjólastólum. Einnig yrðu í byggingunni herbergi fyrir félaga utan af landi sem kæmu til lækninga. Engar tölur um kostnað og vonir stóðu til að framkvæmdir hæfust sumarið 1966.

Aðalfundur 09.03.1966 rætt um tekjumissi Styrktarsjóðs fatlaðra vegna innflutnings á sælgæti og nauðsyn þess að fá samskonar skatt á innflutt sælgæti. Tillaga um að gefa út hljómplötu(r) og að ágóði færi að nokkru leyti í beina starfsemi og svo byggingu væntanlegs öryrkjaheimilis.

Stjórnarfundur 31.03.1966 stjórnin útnefndi tvo og tvo til vara í bygginganefnd að beiðni framkvæmdaráðs landssambandsins.

Aðalfundur 02.03.1967 Theodór A. Jónsson formaður landssambandsins flutti skýrslu um byggingaframkvæmdir samtakanna við Laugarnesveg [Hátún] í Reykjavík. Framkvæmdir hófust 29.10.1966 þar sem tilboði hafði verið tekið frá byggingarfyrirtækinu OK hf. Að upphæð 18.500.000,00 krónur. Landssambandið annaðist sjálft innkaup á ýmsu efni til dæmis steypustyrktarjárni og gleri.

Aðalfundur 29.02.1968 flutt var úr íbúðinni að Mávahlíð 45 og farið með félagsstarfið aftur að Marargötu 2 þar sem rekstri vinnustofunnar var hætt en íbúðin að Mávahlíð 45 var leigð út fyrir 4.500,00 krónur á mánuði.

Stjórnarfundur 28.05.1968 samþykkt að kaupa innanhúss félagsfána og 15 borðfána frá Japan. Ákveðið að láta útbúa bókmerki úr leðri og yrði gefið þingfulltrúum á þingi landssambandsins dagana 08.06.1968-10.06.1968 til minningar um 10. þingið þar sem félagið hafði umsjón með þinginu.

Fundur 28.11.1968 umferðaryfirvöld í Reykjavík höfðu samþykkt að veita mikið fötluðu fólki undanþágu til að leggja bifreiðum sínum þar sem annars er ekki leyft samkvæmt almennum umferðarlögum. Lögreglustjórinn í Reykjavík gaf út reglugerð og útbúin voru sérstök merki. [upphafið að P-merkjunum fyrir fatlaða?]

Stjórnarfundur 27.04.1971 ákveðið að kaupa penna láta gylla á þá félagsnafn og dagsetningu þingsins og gefa þingfulltrúum.

Fundur 11.11.1971 verið var að vinna í lóð, flísaleggja og setja upp handrið. Búið að panta 3 lyftur í húsið og verður því lokið væntanlega eftir sirka 6 mánuði og kostar 4 milljónir. Gervilimafyrirtækið er tekið til starfa. Finnskri stúlku veittur styrkur upp á 15.000,00 fyrir rafmagnsstól heildarverð 50.000,00. Rætt um að skilað yrði inn vottorði svo hægt væri að sjá hvort fötlunin tilheyrði félagsskap Sjálfsbjargar.

Stjórnarfundur 05.10.1972 rætt um að leggja fram á félagsfundi að gefa hjónum frá Akureyri sem misstu allt sitt í bruna 20.000,00.

Stjórnarfundur 24.01.1973 Íþróttasamband Íslands (ÍSÍ) var með athugun með íþróttir fyrir fatlaða og var stjórnin beðin um að tilnefna einn félaga í hjólastól og það var Viðar Guðnason sem var tilnefndur.

Almennur félagsfundur 28.05.1973 stefnt að taka á móti vistfólki til dvalar í byggingu Sjálfsbjargar að Hátúni 12 um mánaðarmótin júní/júlí 1973.

Stjórnarfundur 04.07.1973 á fundinn mættu meðal annars Jón Eiríksson og Sigurður Þ. Jónsson sem mætt höfðu á fund hjá Sigursveini D. Kristinssyni að Marargötu 2 um íþróttir fyrir fatlaða. Í athugun var hvort grundvöllur væri fyrir stofnun íþróttadeildar innan Sjálfsbjargar.

Almennur félagsfundur 26.11.1973 búið að úthluta 41 herbergi í Sjálfsbjargarhúsinu.

Aðalfundur 25.03.1975 skorað á ríkisstjórn að láglaunabætur öryrkja verði ekki lægri en til annarra er láglaunabóta njóta. Klúbbur gefur landssambandinu bíl til að keyra fatlaða og getur tekið hjólastól, búið að panta bíl. Strætisvagnar Reykjavíkur höfðu athugað að láta útbúa sérstakan vagn fyrir fólk í hjólastólum og aðra sem eru mikið fatlaðir.

Stjórnarfundur 28.10.1975 fyrsti stjórnarfundur í félagsheimilinu að Hátúni 12 og var hann haldinn í eldhúsinu en þar var hlýtt og notalegt. Brotist var inn í félagsheimilið aðfaranótt 25.10.1975 og var farið inn kjallara megin og urðu skemmdir en engu stolið.

Bréf frá Sjálfsbjörg landssambandi fatlaðra frá 15.02.1977 þar sem aðildarfélögin eru beðin að senda ýmis gögn til landssambandsins vegna stofnunar „Minjasafns Sjálfsbjargar“, landssambandsins og félagsdeildanna sem samþykkt var á landssambandsþingi 10.10.1976.

Stjórnarfundur 17.03.1977 erindi frá Eiríki Einarssyni um gagnasöfnun fyrir Minjasafn Sjálfsbjargar og ritari tók það mál að sér.

Stjórnarfundur 12.09.1977 með nefndum greint var frá því að búið væri að breyta hurðum á salernum í Víkingasal Hótel Loftleiða þannig að hjólastólar komast þar inn og út.

Fundur 01.11.1977 tillaga til Alþingis að mikið fatlaðir ökumenn fái talstöðvar í bifreiðar sínar þeim að kostnaðarlausu.

Stjórnarfundur 24.08.1978 rætt um störf nefndar um atvinnumál og öðrum málum fatlaðra og framgang starfa hennar við borgarfulltrúa. Einnig var rætt um jafnréttisgöngu sem nefndin ætlar að efna til 19.09.1978 þegar fundur með borgarstjórn mun fara fram að Kjarvalstöðum.

Stjórnarfundur 04.10.1978 rætt um jafnréttisgönguna og að nú væri um að gera að fylgja þessu eftir til dæmis með því að opinberum byggingum verði breytt þannig að þær verði aðgengilegar fyrir fatlaða jafnt og aðra. Þá var upplýst að borgarstjóri væri búinn að skipa nefnd til athugunnar á málefnum fatlaðra og nauðsyn væri að Sjálfsbjörg fengi þar fulltrúa.

Bréf til „Vörumarkaðurinn hf.“ þann 21.12.1978 þar sem þökkuð er gjöf að upphæð 100.000,00 sem gefin var í sambandi við jafnréttisgöngu sem félagið efndi til þann 19.09.1978 og barst sama dag. Ósk gefandans um að fjárhæðinni yrði varið fyrir jafnrétti fatlaðra. Vörumarkaðnum var einnig þakkað fyrir að hafa merkt tvö stæði fötluðum við verslun sína að Ármúla 1a ásamt því að hafa hjólastól til afnota í versluninni.

Stjórnarfundur 14.12.1979 lesið uppkast að bréfi til bæjarstjóra Kópavogs um að bæjarstjórn Kópavogs skipi nefnd álíka og Reykjavíkurborg hafði skipað sem vinni að málefnum fatlaðra.

Stjórnarfundur 27.02.1980 lesið upp bréf til Bæjarráðs Kópavogs um beiðni félagsins að stofnuð yrði nefnd á vegum bæjarins um hagsmunamál og réttindi fatlaðra. Síðan var lesið svarbréf frá Bæjarstjórn Kópavogs þar sem samþykkt var að tilnefna tvo í nefndina.

Félagsfundur 19.11.1980 komið í byggingarlögin að ein íbúð að minnsta kosti í blokk skuli aðgengileg fyrir fatlaða.

Stjórnarfundur 06.05.1981 rætt var um íbúðahverfi sem verið var að skipuleggja fyrir fatlaða í Fossvoginum og voru fundarmenn sammála að ekki ætti að skipuleggja sérstakt hverfi fyrir fatlaða. Rafn Benediktsson formaður tók að sér að mótmæla skipulagningu slíkra hverfa fyrir hönd stjórnarinnar.

Aðalfundur 30.03.1985 setning tafðist vegna hjólastólaflækju fyrir framan matsal í Hátúni 12.

Stjórnarfundur 02.10.1986 Guðríður [Ólafsdóttir] sagði að formaður bygginganefndar Hallgrímskirkju neitaði að leggja skábraut upp að altari kirkjunnar.

Stjórnarfundur 16.10.1986 Lagt fram bréf til byggingarnefndar Hallgrímskirkju dagsett 09.10.1986 þar sem stjórn Sjálfbjargar lýsir óánægju með að ekki hafi verið tekið tillit til aðgengis hreyfihamlaðra að altari Hallgrímskirkju.

Stjórnarfundur 22.10.1986 Svar barst frá formanni byggingarnefndar Hallgrímskirkju vegna erindis um skábraut að altari kirkjunnar og segir hann að málið verði tekið fyrir á fundi.

Stjórnarfundur 22.10.1986 Trausti [Sigurlaugsson] afhenti ljósrit af fundargerð frá 28. desember 1955 að undirbúningsstofnun Sjálfsbjargar.

Stjórnarfundur 18.02.1987 Hildur [Jónsdóttir] lagði til að ekki yrði heimilt að reykja á skrifstofunni.

Stjórnarfundur 03.05.1988 rætt um 30 ára afmælishátíðina og hvað hægt væri að gera Hulda Steinsdóttir stakk upp á að koma inn á nýju útvarpsstöðina [Stjörnunni] í sambandi við afmælið og myndatöku á vídeó [kvikmynd útbúin í tilefni af 60 ára afmæli félagsins 2018].

Félagsfundur 29.04.1992 tillaga um að banna reykingar á fundinum var samþykkt.

Opinn fundur 20.04.1994 fundur með frambjóðendum til borgarstjórnar tveir listar í boði R og D [sömu málefni voru til umræðu og 2018 ] á fundinn mættu 30 manns.

 Félagsfundur 21.10.1995 búið að flytja alla starfsemi félagsins í nýja húsnæðið. Tillaga að nafni á félagsheimilið Laugarbakki.

Tillaga kom fram á aðalfundinum 28.04.2001 um að kanna að sameina skrifstofurekstur félagsins og Sjálfsbjargar landssambands fatlaðra og gera mjög veigamiklar breytingar á rekstri og samtvinna hana mikið við landssambandið. Einnig að ýmis verkefni yrðu gerð á landsvísu sem aðildarfélögin hafa verið að gera sjálf eins og til dæmis sameiginlegar fjáraflanir svo ekki yrðu árekstrar við söfnun fjár.

Aðalfundur 19.04.2011 stjórnarmenn höfðu setið ýmsa fundi vegna yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga um áramótin 2010/2011. Mikið unnið í málefnum þeirra sem urðu 67 ára á árinu og urðu löggiltir ellilífeyrisþegar og hvaða réttindi þeir misstu við það að vera ekki lengur skilgreindir sem öryrkjar eins og til dæmis hækkun á greiðslu í strætó en með harðorðu bréfi til Strætó tókst Sjálfsbjörg að fá því hnekkt.

Aðalfundi 11.03.2020 var aflýst þann 10.03.2020 vegna kórónufaraldursins COVID-19 um óákveðinn tíma. Aðalfundurinn var síðan haldinn 27.05.2020.

(Textahöfundur: Sævar Guðjónsson, 2019; uppfært 2020)