Skilyrði fyrir styrkjum frá Tryggingastofnun
Lífeyrisþegar með hreyfihömlun (sjúkdóm eða fötlun sem skerðir verulega færni til að komast ferða sinna) geta átt rétt á uppbót til reksturs bifreiðar og/eða styrkjum til bifreiðakaupa.
Samkvæmt heimasíðu TR er fyrst og fremst um að ræða:
- Lömun eða skertan hreyfanleika í ganglimum af völdum sjúkdóms eða fötlunar
- Mæði vegna hjarta- eða lungnasjúkdóma
- Annað sambærilegt
Blindir geta átt rétt á uppbót vegna reksturs bifreiða og kaupa á bifreið.
Með styrkveitingunni er TR með veð í bílnum, og því er ekki leyfilegt að selja bílinn nema með leyfi TR. Nánar um bifreiðamál á vefsíðu TR.
Ég ætla að kaupa mér bíl, hvað þarf ég að gera ?
- Kynntu þér málið vel á vefsíðu TR – um bifreiðamál – þar kemur m.a. fram:
- Fylla út umsóknina á vefsíðu TR Mínar síður – með umsókninni er sent heyfihömlunarvottorð frá lækni.
- Hægt er að sækja um styrk allt árið, á 5 ára fresti (miðað er við þann mánuð sem bifreiðakaup fóru fram í fyrsta sinn).
- TR sendir svar til baka innan nokkurra vikna og kallar þá eftir auka upplýsingum ef á þarf að halda.
- Þegar jákvætt svar hefur borist frá TR er bara að finna rétta bílinn.
Ég ætla að selja bílinn minn og kaupa nýjan
Ekki þarf að sækja um leyfi TR ef keyptur er nýr bíll
Ég ætla að selja bílinn minn og kaupi ekki nýjan
Ef bifreið er seld innan fimm ára og ekki keyptur nýr í staðinn þarf að endurgreiða hluta styrksins. Útreikningur endurgreiðslu miðast við fjölda mánaða sem eftir eru af fimm ára tímabilinu. Ef bíll er seldur eftir fjögur ár þarf að endurgreiða 1/5 styrksins.
Undanþágur eru veittar vegna:
- Andláts styrkþega
- Ef bifreið eyðileggst í árekstri á fimm ára tímabilinu og styrkþegi fær ekki bætur frá tryggingafélagi vegna tjónsins.
- Ef styrkþegi og maki skilja og makinn fær bifreiðina. Styrkþegi getur þó ekki fengið nýjan styrk fyrr en að fimm árum liðnum.