Skráning á handriti bókar hófst þann 30. nóvember 2017 en farið var í það að birta kafla úr henni á heimasíðu félagsins til að byrja með árið 2019. Hugmyndin að bókinni hafði verið að gerjast í mörg ár og búið að hvetja til gerðar hennar í þó nokkurn tíma. Vinnsla gagna í bókina hefur verið aflað meðal annars með lestri á gömlum fundargerðum félagsins. Félagið hefur borið fjögur nöfn í sextíu ára sögu þess frá 27. júní 1958.
Skráning fundargerða aðal og félagsfunda frá 27. júní 1958 og til og með aðalfundi þann 24. apríl 1999 voru handskráðar og mjög misjafnar til lesturs en með hjálp bæði karla og kvenna þá hafðist að rýna í skriftirnar en eftir það auðveldaðist lesturinn þegar tölvuskráningin hófst en að sama skapi hvarf tilfinningin og persónueinkennin sem finna mátti fyrir í handskráðu fundargerðunum. Sama má segja um fundargerðir stjórnar sem til eru frá upphafi til og með 10. júní 1993 en fundargerðarbókin sem kemur þar á eftir er hvorki fugl né fiskur og ekki hægt að vinna sögulegar upplýsingar upp úr þeirri bók en þar er síðasta dagsetning á fundargerð 29.04.2000. Þá eru fyrstu árin sem fundargerðir voru skráðar á tölvutækt form glataðar þannig að næstu fundargerðir sem til eru, eru frá 28. apríl 2001 sem er aðalfundargerð og stjórnarfundargerð frá 30. apríl 2001. Því má segja að töluvert gat sé á sögulegum heimildum um félagið.
Það ber að hafa í huga að það efni sem kemur fram í þessari bók litast af því hvað mér finnst athyglisvert í gögnum félagsins. Fyrir utan upplýsingar upp úr fundargerðum Sjálfsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu þá hafa fundist aðrar skráðar heimildir. Reynt hefur verið að finna staðfestingar á upplýsingum, sem hafa verið fengnar frá félögum, eftir fremsta megni. Texti í [hornklofa] er ekki til í frumtexta en fundinn út frá öðrum heimildum og líka leiðréttingar á texta frumgagna út frá öðrum gögnum. Ýmis önnur gömul gögn fundust eins og til dæmis 14 blaðsíðna samantekt frá því í desember 1983 skráð af Vilborgu Tryggvadóttir í tilefni af 25 ára afmælis félagsins sem er ómetanlegt.
Þegar til kemur að ákveða hvað skuli taka fyrir í samantekt eins og gerð er í þessari bók fyrir sextíu ára gamalt félag spyrja margir hvers vegna að hafa sér kafla fyrir endurskoðendur og skoðunarmenn. Ég ákvað að taka til yfirlit yfir þá félagsmenn sem hafa gengt þessu óeigingjarna starfi og fáir muna eftir að þörf sé á að vinna.
Þar sem vinnsla bókarinnar hefur tekið langan tíma þá hafa bæst við upplýsingar sem átt hafa sér stað eftir 60 ára afmælisdaginn þann 27. júní 2018 og meðal annars að á aðalfundi félagsins 13. mars 2019 fékk félagið nýtt nafn Sjálfsbjörg félag hreyfihamlaðra á höfuðborgarsvæðinu.
Það var síðan 03.06.2020 að hluti af stjórnarfundargerðum frá og með 29.09.1995 til og með 04.04.1997 fundust á skrifstofu félagsins.
Einnig eru sumir kaflarnir uppfærðir árlega og aðrir eftir því sem á við.
(Textahöfundur: Sævar Guðjónsson, 2019; breytt 2020, 2021)