Bifreiðarmál

Með bættri tækni og úrvali af sérútbúnaði eiga sífellt fleiri fatlaðir þess kost að aka sjálfir sínum eigin bílum.

Hér til vinstri má finna upplýsingar um sérútbúnað fyrir bíla, afslætti og bílastyrki og allt um P-merkið.

Vissir þú að:

Þegar stýrisbúnaði hefur verið breytt þannig að léttara er fyrir ökumann að stjórna ökutækinu þarf einnig að hafa auka orkuforðabúr, þannig að ef hreyfill ökutækisins stöðvast af ófyrirsjánlegum orsökum tekur orkuforðabúrið við stýribúnaðinum svo ökumaðurinn geti stýrt ökutækinu þar til það stöðvast. Reglugerð nr. 822/2004.

Bifreiðar sem flytja hreyfihamlað fólk

Í reglugerð nr. 822/2004 segir meðal annars:

Aðbúnaður Ökumanns og farþega (bls. 49 og 50)

  • Lofthæð í farþegarými skal vera að minnsta kosti 145 cm á svæði sem er 40 cm innan við hliðar.
  • Hjólastól skal vera hægt að festa í fjórum hornum. Í hverju hjólastólarými skulu vera festingar sem eru niðurfelldar í gólf, að minnsta kosti tvær festingar aftan við hvern hjólastól og ein framanvið. Bilið milli festinga skal vera sem næst breidd hjólastóls og ef notuð er ein festing að framan skal hún vera fyrir miðju.
  • Festisólar skulu vera að minnsta kosti 25 mm á breidd, 350 til 700 mm að lengd og þola að minnsta kosti 500 daN átak. Festisólarnar skulu vera með viðeigandi festingar fyrir gólffestingar og hjólastóla.
  • Þar sem því verður við komið skal vera bakstuðningur og höfuðpúði fyrir hreyfihamlaða farþega sem eru í hjólastólum í bifreiðum.
    Neðri brún bakstuðningsins skal vera 35 – 45 cm yfir gólf og efri brúnin skal vera að minnsta kosti 135 cm yfir gólfi. Breiddin á bakstuðningnum skal vera 30 – 40 cm og halli má ekki vera meiri en 12°. Bakstuðningur með efri öryggisbeltafestingu skal við beltafestingu þola að minnsta kosti 1350 daN átak, án öryggisbeltafestingar 530 daN á öllu svæðinu.

Öryggisbúnaður (bls. 97)

  • Bifreiðar sem búnar eru til flutnings á hreyfihömluðum skulu búnar að minnsta kosti þriggja festu öryggisbeltum eða öðrum öryggisbúnaði sem hæfir flutningi einstaklingsins.
  • Bifreiðarnar skulu hafa öryggisbelti sem eru fest við yfirbyggingu bifreiðarinnar eða festingum tengdum yfirbyggingu.
  • Neðri festing öryggisbeltanna skal vera eins og á skástrikaða svæðinu á myndinni hér fyrir neðan.

Inn- og útgangur (bls. 59)

  • Það skulu vera að minnsta kosti einar dyr á farþegarými sem eru að minnsta kosti 130 cm að hæð og að minnsta kosti 100 cm að breidd
  • Neyðarútgangar skulu verða hið minnsta þrír. Einn á þaki og einn á hvorri hlið. Dyr á afturgafli geta komið í stað neyðarútgangs á hlið.
    Frá farþegarými skal vera greiður gangur, að minnsta kosti 35 cm að breidd, að neyðarútgangi á hvorri hlið.
  • Rampur eða lyfta skal vera ef hæð frá jörðu og upp í gólf bifreiðarinnar er meiri en 10 cm. Rampur skal vera í heilu lagi og má halli ekki vera meiri en 15%. Breidd rampsins skal vera að minnsta kosti 80 cm og ef hann er lengri en 120 cm skulu vera að minnsta kosti 30 mm háar brúnir.
    Breidd lyftupalls skal vera að minnsta kosti 80 cm og lengdin að minnsta kosti 100 cm. Á lyftupalli skal vera búnaður sem varnar því að hjólastóll geti runnið út af pallinum.